Kolbeinn

Veiðifélagið Kolbeinn snýst um svo miklu meira en veiði. Það eru allir vinir í veiðinni og aldurinn skiptir ekki máli. Kolbeinn er ekkert gamall! Það höfum við alltaf sagt.









Vefsíða Kolbeins er flutt yfir á 21. öldina á lénið: kolbeinn.wordpress.com.

Guð veri með ykkur!

posted by Siggi on 4/07/2008 07:25:00 AM

Kolbeinsaflastrákar

posted by Siggi on 5/13/2007 12:17:00 PM

Fyrirhuguð ferð í sænskan fúlalæk
- Kolbeinar koma allir saman

Ansi hljótt hefur verið um þennan opinbera fjölmiðil og tilkynningaskyldu Kolbeins undanfarin misseri. Ræður þar aðallega klofningur meðlima víða um lönd og fáar samverustundir þar af leiðandi. Þó skal skýrt frá því hér, þó að nokkuð seint sé, að Kolbeinar Sigurður, Sölvi og Hjörtur mættust í Djúpavatni í miðjum júnímánuði á síðasta ári við Djúpavatnið sitt og áttu þar yndislega kvöldstund og morgun eftir. Aflinn var góður þó að grunsemdir hefðu vaknað um það við át aflans að Djúpavatnsfiskum sé ef til vill skammtað fullmikið af einhvers konar lýsisfóðri. En nóg um það.

Nýjustu fréttir að Kolbeini og strákunum hans eru hins vegar svikafréttir miklar: Kolbeinar dveljast allir utan veiðilandsins eina og sanna um þessar mundir, þar af 4/5 Kolbeins á Stór-Eyrarsundarsvæðinu. Kolbeinar hafa því tekið þá meðvituðu ákvörðun að svíkja unaðsland fiskimennskunnar en taka þess í stað á leigu sænskan fúlalæk og reyna að mynda þar veiðistemningu sem að einhverju leyti getur komist í hálfkvist við þá alsælu sem þrífst við tærar bergvatnsár og fyssandi veiðikvíslir Ísalandsins eina og sanna sem að Kolbeinar blóta af mikilli innlifun.

Stefnt er á Svíþjóðarferð þessa í maímánuði næstkomandi. Þar verður Brennsi frændi með í för, sænskur lättöl, dönsk pura, spúnn, lína og andi gamla mannsins. Ekkert mun því skorta og raunar stefnir allt í það að í fyrsta skipti í ein fimm ár komi þar saman Kolbeinshópurinn komplett og njóti platónskra karlmannsásta og gráti yfir minningum horfinna daga, fiska sem sluppu og sumarnótta sem voru allt of stuttar.

Kolbeinar eru farnir að telja niður eins og börn til jólanna.

Áfram Kolbeinn. Hann lengi lifi!!!

Kolbeinn, Kolbeinn Kolbeinn, Kolbeeeeeiiiiinnnn!!!

posted by Siggi on 2/22/2007 02:00:00 PM

Kolbeinsstuttmynd!!!

KOLBEINN AUGLÝSIR KOLBEINSSTUTTMYND DJÚPAVATNSFERÐAR HÉR. UNAÐSLEGT YNDI ALSÆLUNNAR.

posted by Siggi on 10/03/2005 08:10:00 PM

...en Guð býr í Djúpavatni, Kolbeinn!
- Neeejjj-sko!


Yndislegir angar og sporðar allra landa, þá er henni lokið Kolbeinsferð 2005 þar sem allt var fullkomið - eða svo gott sem, Kolbeins Hjartar var nefnilega sárt saknað en á meðan að veiðiferð stóð húkti Kolbeinn Hjörtur kjökrandi við fúl og menguð Amsterdammssíki og reyndi að fanga herpessjúka marhnúta frekar en ekki neitt.

Kolbeinar (og gesturinn Orri) lögðu í hann í stórkostlegu veðri að kvöldi þriðjudagsins 19. júlí, drekkhlóðu japanskan bílskrjóð og áðu aðeins til þess að grípa einn ródara með frönskum og kóki og öllu tilheyrandi á leiðinni út úr bænum. Annars var haldið um Þrengslin og eftir malarvegum Selvogs þar til komið var á fyrri veiðistað Kolbeins: Hlíðarvatn í Selvogi. Herptist þá allt hold Kolbeina sem ekki voru lengi að rífa upp stangir sínar, svo og frisbídisk - að Kolbeini Aðalsteini undanskildum sem strax réðst í tvísýna skák við yfirvöld í Vatikaninu. Það finnst Kolbeini Aðalsteini gaman. Nóg um það.

Að gamalli venju drukku Kolbeinar gamla manninum skál í upphafi ferðar með því að láta Brennsa frænda ganga á milli og fylla tappann - um það bil tvo, þrjá umganga. Þar með var hiti kominn í hópinn, stangir voru settar saman og haldið niður að vatni og veiðilendur kannaðar. Kolbeinn Sölvi ,,sá hann vaka" ótt og títt en öðrum veiðimönnum var mestmegnis ómögulegt að sameinast honum í þessari ofursjón. En þess verður vissulega að geta að Kolbeinn Sölvi ber gleraugu sem hlaðinn eru miklum plús þannig að oft sér hann ýmislegt sem að aðrir koma ekki auga á.

Þrátt fyrir nokkur góð köst varð enginn Kolbeina svo mikið sem var þannig að lokum sneru drengirnir hans Kolla gamla sér að frisbídisknum - hinni aðaliðju Kolbeina - og köstuðu honum af listfengi miklu. Gerðust svo leiðir á þeim leik og ákváðu þá að klífa fjall (sem örugglega heitir Hlíðar-eitthvað). Eftir mikið puð og samkveður á Fjallgöngu Tómasar Guðmundssonar (þar sem Kolbeinn Bjarki kunni nördalega mikið af kvæðinu) náðu Kolbeinar hraktir og kaldir og þreyttir á tind bjargsins og neyddust til þess að kneyfa örlítinn ölsopa enda loftið orðið ákaflega þunnt svona í 300 metra hæð og mjög hættulegt að verða fyrir vökvatapi.

Niður aftur komnir gúffuðu Kolbeinar í sig ýmsum þjóðlegum krásum á borð við harðfisk, flatkökur (ekki flatbrauð!), hangikjöt, hangipulsu og síðast en ekki síst - buggles. Svo tók við önnur frisbísessjón sem fljótlega breyttist í æstan leik og nokkuð harðskeyttan þegar að einn var settur í miðju til að ná disknum af hinum og var þeim hinum sama nokkuð í sjálfsvald sett hvaða brögðum hann beitti. Niðurstaða leiksins var sú að Orri gekk frá velli með grunað rifbeinsbrot og Kobeinn Sigurður hrundi í hraungjótu og rispaðist svo á fótleggjum að á tímabili var talað um að best væri ef til vill að sníða fótinn af. En ,,þetta er bara smá skeina" sagði Kolbeinn Sigurður, hreystin uppmáluð, og lét það ekki á sig fá þó að hægri fótur hans lafði einungis á á örfáum sinum og taugaendum. Hann er hraustur maður, hann Kolbeinn Sigurður. Hraustasti Kolbeinninn af öllum, segja sumir.

Fljótlega að þessu loknu tóku Kolbeinar á sig náðir. Daginn eftir var áfram reynt að fanga fiskinn en skemmst er frá því að segja að ekkert gekk utan þess að Kolbeinn Bjarki var kominn með vænan fisk á sem annað hvort var eitt pund eða tuttugu (bara man það ekki) en missti. Síðdegis pökkuðu Kolbeinar saman öllu sínu og nú var ferðinni heitið í Djúpavatn.

Kolbeinar keyrðu góðan spöl á malbiki eftir Reykjanesinu suðvestanverðu í leit sinni að afleggjara Djúpavatn þegar að þeir loksins fundu stiku sem vísaði í rétta átt. Þar stóð að einungis tólf kílómetrar væru á áfangastað. Þessir tólf kílómetrar urðu þó að heilum klukkutíma á vegi sem ekki var hægt að aka á yfir tólf kílómetra hraða. Þar bar annars helst til tíðinda á þessum vegkafla að Kolbeinn Bjarki steig út úr bílnum fimm sinnum til þess að kasta af sér vatni og ávallt var bunan á við heilan bola. Furðuðu aðrir Kolbeinar sig á því hversu ógurlegt magn af vatni annars smávaxinn líkami Kolbeins Bjarka hafði að geyma. Sú niðurstaða fékkst að Kolbeinn Bjarki væri agúrka en ekki maður - með 95% líkama síns í formi vatns í stað eðlilegra 70%.

Þegar áfangastað var náð blasti við paradís: DJÚPAVATN! Um leið og vatnið blasti við í sínu djúpa dalverpi og ekki síður þegar komið var upp að kofanum sjálfum, sem fremur var sem höll, svo ekki sé talað um konunglega grillaðstöðuna og fallega frisbíblettinn fyrir framan tún þá ráku Kolbeinar upp húrrahróp og brustu síðan í grát og sögðu einn við annan: Hér vil ég una æfi minnar daga alla, sem Guð mér sendir.

Orri gekk í að hlaða kolum á grillið og kveikja upp í, enda Kolbeinar orðnir sársoltnir, en aðrir báru inn dót. Síðan tóku Kolbeinar til við að kasta og fljótlega kom á hjá veiðikóngi Kolbeins, Kolbeini Sölva, pínulítill fiskur - ömurlega lítill að vísu en vissi á gott. Kolbeinar grilluðu svo og kjömmsuðu á kjötmeti og kartöbblum og kneifuðu mjöð og lögðu Brennsa út í vatn til kælingar. Síðan smeygðu þeir Kolbeinar Bjarki, Sölvi og Sigurður sér í vöðlusmokka sína og héldu niður að vatni. Lítið gerðist framan af annað en það að pínulitlir fiskar héldu áfram að koma á land öðru hvoru. Kolbeinar skeyttu lítið um það.

Héldu síðan meðfram bakkanum og veiddu áfram en Kolbeinn Aðalsteinn og heiðursgesturinn Orri hvíldu sig hins vegar inni í skála. Hámarki náði veiðikvöldið þegar að Kolbeinn Sigurður fékk að reyna flugustöng Kolbeins Sölva með þeim mikla árangri að brátt var vænn urriði á. Kolbeinn Sigurður stirðnaði allur til holdsins og tók vel á. En urriðinn hafði að lokum betur og slapp og eftir sat Kolbeinn Sigurður, sár maður og grét í gaupnir sér en var huggaður af Kolbeinum Bjarka og Sölva.

Það bar síðan næst til tíðinda að það sást úr fjarlægð til túristaóberma tveggja sniglast í kringum veiðiskálann góða. Blótuðu þeir þrír Kolbeinar sem við veiði voru þessu hyski í sand og ösku sem komið var til þess að skemma helgi Kolbeinsferðar. Endaði með því að Kolbeinn Sölvi hrópaði hátt og snjallt svo ómaði um dalinn: ,,AUF WIEDERSEHEN!" Kveðjan nýttist einstaklega vel, sérstaklega þegar Kolbeinar komust að því að viðkomandi voru Frakkar. Og til að bæta nú gráu ofan á svart þá birtist allt í einu við vatnið grindvískt hvíthyski sem vildi fá að kasta. Sem betur fer hélt það fljótt sína leið en frönsku túrístasníkjudýrin létu ekki segjast og í frekju sinni og ýtni slógu þau upp tjaldi rétt við skála Kolbeins og létu ekkert á sig fá þó að Kolbeinar reyndu að fæla þau í burt með því að spila Villa Vill og annað gott stöff á góðu blasti.

Við tók kvöldvaka Kolbeins þar sem meðal annars var farið í leikinn: Nefnið einhverja kvikmynd. Þrátt fyrir fremur einfaldar og, að því er virðist, auðveldar reglur leiksins - að nefna bara einhverja kvikmynd - vafðist þessi kúnst fyrir mörgum Kolbeina enda Kolbeinar einkum veiðimenn en ekki einhverjir bíógláparar. Til mikilla tíðinda dró þó um miðja nótt þegar að Kolbeinn Sölvi birtist allt í einu utan úr buskanum, sæll á svip, með vænan urriða í höndunum. Sá hafði orðið fyrir ,,letingja" Kolbeins Sölva sem legið hafði úti í vatninu meðan að kvöldvakan fór fram. Gladdi þetta geð Kolbeina allra sem fóru með góð fyrirheit í háttinn.

Daginn eftir hélt veiðimennska áfram og í gríð og erg var beitt sömu taktík og gefist hafði svo undurvel nóttina áður, beitt var og kastað svo langt og látið liggja. Á meðan snæddu Kolbeinar mat, köstuðu frisbí, hlustuðu á Villa Vill og höfðu það almennt séð náðugt. Þetta skilaði þeim stórkostlega árangri að tveir vænir urriðar til viðbótar bárust á land - annan þeirra dró Kolbeinn Sigurður en hinn Kolbeinn Sölvi. Kolbeinn sveif á skýi alsælu og festi Djúpavatn enn betur í sessi en fyrr sem eilífðarveiðistað Kolbeina héðan í frá.

Þrátt fyrir nokkuð af köstum til viðbótar var ekki meira að fá að þessu sinni enda nóg komið - fengsælasta Kolbeinsferð hingað til var að enda komin. Kolbeinar pökkuðu saman og héldu syngjandi í bæinn, glaðir en meyrir yfir undrum náttúrunnar. Og Guðs. Og Kolbeins - sem ER ekkert gamall!


PS. Orð þessi eru öll tileinkuð honum Kolbeini Hirti sem nú hefur ákveðið að hætta mastersnámi í útlöndum til að þurfa aldrei aftur að upplifa þann ósóma að vera staddur í útlöndum ljótum þegar að Kolbeinsferð ber að garði. Menn sleppa ekki Kolbeinsferð án þess að sjá eftir því. Neeejjj-sko!

posted by Siggi on 7/28/2005 10:14:00 AM

Má ég minna á síðu þess stórkostlega veiðifélags Kolbeins. Um þessar mundir eru allir félagar, nema ég í veiði í Hliðarvatni og Djúpavatni. Ég verð að segja að ég er að sálast úr veiðiþrá. Máski ég hendist niður að síki á eftir.

posted by Spartakus on 7/21/2005 08:38:00 AM


Veiðiferð í Hlíðarvatn og Djúpavatn

Dýrðarogsólskinsdagurinn 19. júlí 2005.

Jæja jæja jæja! Það er barasta komið að stóru stundinni. Í dag heldur 4/5 Kolbeins á vit óvissu reykneskra óbyggða í margra, margra mínútna fjarlægð frá mannabyggðum. Fyrst verður haldið í Hliðarvatn í Selvogi. Þar hafa Kolbeinar Sigurður og Sölvi áður gert heiðarlega tilraun til fiskerís en árangurslaust. Nú hefst önnur tilraun og það með hjálp þeirra Kolbeina Aðalsteins og Bjarka auk fulltingis Orra sem hefur öðlast þá endalausu heppni að fá að vera áheyrnarfulltrúi í Kolbeinsferð.

Um kvöldmatarleytið annað kvöld heldur hópurinn svo alla leið í Djúpavatn, sem er í margra mínútna keyrslu frá Hlíðarvatni. Þar tekur ekki síðra mokfiskerí við og hafa Kolbeinar af því einar áhyggjur í sambandi við ferð þessa að bílskrjóðurinn muni eiga erfitt með að selflytja heim í byggðir allan þann afla sem rótast mun á land.

Eða eins og Siggi Sveins, Laxabani Ölfusár myndi orða það: Við bunkum honum á land!

posted by Siggi on 7/19/2005 01:48:00 PM

Nú nálgast hún óðum, hin langþráða veiðiferð Kolbeins 2005. Aðeins Kolbeinn Hjörtur verður fjarri gamni góðu en í hópinn bætist gesturinn Orri, góður drengur af norðlensku kyni. Eitt af því sem ómissandi er í aðdraganda Kolbeinsferðar er að draga upp gamla heimild af veiðiferð þeirra félaga Kolbeins veiðikóngs og Ragnar Hólms litla lærlings. Kolbeinar reyna að læra eitt og annað af töktum þessa tvíeykis kennara og lærlings. Kolbeinn Sigurður stendur í því þessa dagana að reyna að verða veiðifélaginu Kolbeini út um spóluna með þessu merka heimildarefni.

Til stendur að þrír Kolbeinar, og jafnvel fjórir ef Kolbeinn Sölvi slæst í hópinn, komi saman á laugardagskvöldið kemur og hiti upp fyrir veiðireisuna. Er þá aldrei að vita nema að spólan góða verði dregin upp, svo og upptökurnar unaðslegu sem til eru frá Kolbeinsferð 2001 í Hörgsá.

Unaður og yndi.

posted by Siggi on 7/14/2005 11:00:00 AM



Kolbeinn Hjörtur er leiður yfir því að komast ekki í Kolbeinsferð í Djúpavatn.

Styttist vissulega

Með hverjum degi styttist biðin í yndislega Djúpavatnsferð Kolbeins sem farin verður eftir ekki meira en svo sem eins og rúma tvo mánuði. Nú þegar er ljóst að allir Kolbeinar utan Kolbeins Hjartar eru klárir í slaginn og auk þess er búist við sérlegum gestaveiðimanni, honum Orra - dansk-sænskum ljósálfi sem ættir sínar rekur norður í land. Hann mun kynnast því hvernig alvöru Kolbeinar fanga fisk, fleygja frisbídisk, fíra upp í grilli og fagna samveru og fallast í faðma. Það verður því gaman í Kolbeinsferð í Djúpavatni hjá drengjunum hans Kolla gamla.


posted by Siggi on 5/14/2005 12:27:00 PM



Veiðiferð í Djúpavatn 20.-21. júlí
-gamli maðurinn í geðshræringu

3. maí 2005
Nú er gamli maðurinn við það að missa þvag af gleði. Rétt í þessu var það niðurnelgt að Veiðifélagið Kolbeinn mun halda í sína fyrstu nánast fullmönnuðu veiðireisu í heil þrjú ár. Líklegt að aðeins Kolbeins Hjartar verði sárt saknað að þessu sinni. En hann má vita það að það er aldrei of seint fyrir hann að sjá að sér og bætast í hópinn.

Stefnan er tekin á hið unaðslega Djúpavatn á Reykjanesi þar sem meira að segja má vænta vænna urriða sem eiga munu í hetjulegri baráttu við Kolbeina og stangir þeirra. Kannski háfur Kolbeins Bjarka, brúðkaupsgjöf Kolbeins til hans, komi sér þá vel. Ótvíræður kostur þessarar ferðar Kolbeina er að Kolbeinn fær vatnið út af fyrir sig þennan sólarhring og má henda eins mörgum stöngum út í og hann lystir. Og veiðihús fylgir að sjálfsögðu. Kolbeinn verður því allsráðandi einvaldskóngur af Djúpavatni einn dag og ekki er það nú verra.

Ferðin verður farin að miðvikudagskvöldi 20. júlí og veiði lýkur síðan síðdegis daginn eftir. Allt lítur þetta því afskaplega vel út. Þegar þetta er skrifað er reyndar enn beðið formlegs samþykkis Kolbeins Aðalsteins og Kolbeins Sölva við ráðagerðum þessum en ekki er annars að vænta úr þeim rönnum en að hæð verði hoppuð af gleði yfir langþráðri Kolbeinsferð.

Lengi lifi Kolbeinn. Húrra! Húrra! Húrra! Húrraaa!!!

posted by Siggi on 5/03/2005 11:11:00 AM



Veiðitúr í vændum

2. maí 2005
Kolbeinn gamli hefur verið rámur og bitur undanfarin misseri enda hefur lítið farið fyrir góðum samfundum félaga í veiðifélaginu Kolbeini með stöng í hendi og bros á vör. Nú gæti hins vegar vænkast hagur þar sem Kolbeinar plana nú sem aldregi fyrr reisu í júlímánuði og vonast er eftir nánast fullri mætingu, aðeins Kolbeinn Hjörtur kynni að vera fastur í öðrum löndum.

Langþráður draumur gamla mannsins því í seilingarfjarlægð. Loksins fær hann eitthvað til að lifa fyrir, blessaður gamlinginn, fyrir utan gamlar minningar um fimleg fluguköst og fallegar veiðilendur.

posted by Siggi on 5/02/2005 03:11:00 PM

Veiðisaga Vola síðan í sumar
1. 12. 2004

Nú loksins birtist veiðisaga þeirra Kolbeins Hjartar og Kolbeins Sölva um Volaferð sem drengirnir fóru í á við þriðja mann í ágúst liðnum. Allir Kolbeinar sem einn hírast nú í evrópskri útlegð, langt frá heimalækjunum og spriklandi silfruðum öngunum sem um þá svamla. Kolbeinn vonar að þessi litla saga veiti gleðihýru inn í brjóst niðurdreginna Kolbeinsdrengja og svali að einhverju leyti óslökkvandi heimþrá þeirra. Gjörið svo vel, bröndurnar mínar. Kolbeinn gamli biður að heilsa yfir hafið.


Veiðiferð í Vola í ágúst 2004

11. ágúst 2004

Eiginlega byrjaði þetta allt á vitleysu. Manni var harkað úr vinnunni vinnandi fáandandi frí fyrir tímann afþí aðrir voru svo spenntir að fara. Síðan hófst sagan. Þeir voru búnir að vera á fyelleríi. Já. Á fylleríi. Hjörtur kom þunnur í heimsókn í búðina og reyndi að feikaða. Ég reyndi að kaupaða en vildi samt ekki borga fyrirða. Þannig að við ákváðum að hittast seinna. Síðan komu þeir. Á Volkswagen. Og ég kom niður. Góður þessi. Þá bættist það ofaná að Kolbeinn-Hjölli var orðinn vínlaus eftir fylleríið sitt kvöldið áður. Það var svosem auðvitað. Eftir að hafa í miillitíðinni farið eftir möðkum heimtil Steins. Þannig að við þurftum að fara á leynibar að kaupa aukavín svo hann gæti verið aftur fullur í ferðinni. Og þaðan þurftum við að fara á Þingvelli afþví að Kolbeinn-Hjölli hafði gleymt veiðgræjunum sínum. Já þannig að það tafði okkur ennfrekar. En við létum þetta samt ekki á okkur fá heldur héldum áfram. Og það var gaman. Til þess að létta örlítið á samvisku Hjartar fékk ég mér bjór á Þingvöllum. Það setti smá svip í landslagið. Síðan fórum við og pikkuðum upp háf hjá pabba á Selfossi. Hann kom að góðum notum síðar (kemur fram síðar). Við vorum mjög vongóðir þegar við komum. Margar þurrkúkanir framundan. Mér leist vel á strákana. Þeir áttu mikið inni. Þessi þróttur. Ákefðin. Við enduðum samt á því að spila reykja tíuþúsund og grilla til fimm vakna síðan um tíu og fara að veiða. Ég vann ellefu tíuþúsund í röð. Þeir hljóta að hafa verið í einhverju sérstöku á meðan. Ég er glaður að vinna. Síðan vorum við ákveðnir að veiða marga fiska morguninn eftir og veiddum ellefu. Þeir voru allir litlir. Stærsti fiskurinn kom óleglega í háf. Óvart samkvæmt heimildum. Hann var eitt pund. Hinir voru allir minni en ein bjórdós. Ég missti einn sem var um fjögur pund eða eins og fjórar bjórdósir. Svo sá ég einn eins og ég hafði veitt árið áður, sex punda en hann hann vildi ekki taka hjá mér og þá varð ég leiður. Því Kolbeinn er leiður ef hann fær ekki það sem hann vill. Kolbeinn er beiski náunginn. Hann er allt það sem við erum ekki. Hann er okkar alter alter-ego. Afneitun okkar allra og okkur þykir öllum vænt um hann. Við elskum hann. Við sofum hjá honum. Hann er góður. Gaman já. Bless. Kolbeinn-Sölvi

posted by Siggi on 12/01/2004 10:29:00 PM

Kolbeinn Hrafnkell Ari
28. 9. 2003

Kolbeinn gamli hefur skolfið úr geðshræringu og vart ráðið sér af kæti síðustu daga enda hefur tilefnið verið ærið. Þann 19. september síðastliðinn kom nefnilega í heiminn fyrsti fulltrúi Kolbeina af kynslóð númer tvö. Það var hann Kolbeinn Bjarki sem eignaðist hraustan og alveg hreint bráðmyndarlegan dreng suður í Skíðehávn. Þessi erfðaprins Kolbeins hefur nú fengið nafn og heitir hann Kolbeinn Hrafnkell Ari, þó að síðustu nöfnin tvö séu að vísu bara skráð í þjóðskrá.

Kolbeinn Hrafnkell Ari er undrabarn hið mesta og hefur, að sögn föðurins, strax á áttunda degi hnýtt sína fyrstu flugu. Hann tilkynnti pabba sínum með tárin í augunum að hann tileinkaði þessa flugu ævarandi vináttu Kolbeina. Stoltur faðir gerði enga tilraun til að halda aftur af tárunum, samkvæmt dönsku fréttaskeyti sem barst í dag.

Í öðrum og miklu ómerkilegri fréttum er það að allt lítur út fyrir að þrír Kolbeinar fallist í faðma í Stokkhólmi í lok næsta mánaðar. Þeir Kolbeinn Hjörtur og Kolbeinn Sölvi ætla að heimsækja veiðiklóna Kolbein Sigurð en hann nemur nú sænska tvíhendukasttækni í virtum háskóla lífsins í þarlendu höfuðborginni. Það verða fagnaðarfundir miklir og án efa mun veiðina bera á góma, soginn verður ekki yfir fögrum minningum og kverkarnar bleyttar með örlitlu brennivínstári.

Að lokum kemst Kolbeinn gamli ekki hjá því að áminna góðlátlega þá Kolbein Hjört og Kolbein Sölva fyrir það að hafa ekki enn birt veiðisögu þeirra Kolbeinsdrengja tveggja síðan úr ferð þeirra síðsumars. Gera nú eitthvað í þessu, drengir!

posted by Siggi on 9/28/2004 01:17:00 PM

Fornleifafundir
23. júní 2004

Þetta eru dagar mikilla fornleifafunda í hirslum Kolbeins Sigurðar. Um daginn gerði hann sér lítið fyrir strákurinn og lét loks færa yfir á myndbandsform lifandi myndir úr hinni unaðslegu veiðiferð Kolbeins sumarið 2001 í Hörgsá. Myndir þessar verða sýndar á einhverri árshátíða Kolbeins, kannski þegar að sú yndislega staða kemur upp að Kolbeinar verða allir staddir á landinu sínu indæla. Því miður virðist sú von fremur vera að fjarlægjast heldur en hitt því að þeir tveir Kolbeinar sem þó hafa tórt á veiðilendunni undurfögru, þeir Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Sölvi, leggja báðir í hann í sumar og þá verður enginn Kolbeinn eftir á Íslandi nema gamli veiðikóngurinn. Og hver á þá að nudda á honum lúnar axlirnar og tærnar eftir langan veiðidag? Ja, spyr sá sem ekki veit.

En fleira geymdi Kolbeinn Sigurður. Meðal annars þessi indælu dróttkvæði Kolbeins sem að Kolbeinn Hjörtur og Kolbeinn Sölvi snöruðu fram milli kasta við Vola í fyrravor:

Dróttkvæði Kolbeins

Kolbeinar at Vola kættust
kjöt á disk ok fiska
stöngum veiða stungu
strítt í ánna hnýttu
línu ána ljóta
lífi maðka hnífum
önglum luku engum
allra víddir kallar

Kolbeinn Hjörtur


Hjörtur hefur ort og
hampar titli skvampsins
setti í fisk sem fettist
furðulega af snurðu
öngulsins en söngvar
sumarsins , þá gumar,
fóru í Vola, verðugt
vinir, ábreiðu dýnur.

Kolbeinn Sölvi

posted by Siggi on 6/23/2004 02:25:00 PM

Kolbeinn Hjörtur skrifar frá Amsterdam

Hér sit ég á sumardegi í útlandinu. Veðrið er ákjósanlegasta veiðiveður, 14 gráðu hiti, logn og skýjað. Fyrir utan gluggann minn, síkið og ég læt mig dreyma að þar fari lygnt Sogið eða Voli og undir steini leynist sjóbirtingur eða vænlegasta bleykja. Munda kústskaftið sem veiðistöng og set upp derhúfuna og út um gluggan þetta myndarlega kast, einn tveir þrír, út í miðja á og örskotsstund síðar er bitið á.

Ó þetta líf, þetta líf

posted by Spartakus on 6/23/2004 12:06:00 PM

Tveir Kolbeinar aftur í Baugstaðaós
- einar Kolbeinarnir á landinu halda í veiði -

10. 5. 2004
Kólbeinshópurinn á gamla Íslandinu er fremur þunnt skipaður um þessar mundir. Hann telur raunar aðeins tvo félaga, þá Kolbein Sigurð og Kolbein Sölva. Þetta er auðvitað fremur bág staða, sérstaklega nú þegar að fengitíð er nýhafin og spenna hlaupin í veiðimenn. En það þýðir ekki að gráta orðinn hlut heldur gera gott úr. Og það hyggjast þeir Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Sölvi gera annað kvöld þegar þeir halda á gamlar slóðir; í Baugstaðaósinn eina og sanna. Þar undu þrír Kolbeinar sér vel fyrir um það bil nákvæmlega ári síðan. Kolbeinar Sölvi og Sigurður hyggjast reyna með sér í ósnum í svo sem eins og einn sólarhring en njóta samverunnar þess á milli; kasta frisbídisk, grilla íslenskar kjötafurðir og hella kannski svo sem eins og einu brennivínstári ofan í tappa og súpa af. Já, yndislegt verður það!

En í tilefni þessa alls saman þykir ekki úr vegi að rifja upp veiðisögu 3/5 Kolbeins frá því á síðasta ári:

Jæja þá! Þá er vel heppnaðri Kolbeinsferð þriggja Kolbeina af fimm lokið. Aflinn ef til vill ekki til að metta heila stórveislu en það er nándin við fiskinn og hver annan sem skiptir Kolbein meira máli en mokafli sem slíkur. Þrír unaðslegir boltar náðust þó á land. Þá eru ótalin eftirköst Kolbeins Sölva sem varð eftir þegar hinir drengirnir tveir héldu í bæinn. Þá náði hann heilum fimm hlussufiskum. En þá var Kolbeinsferð formlega lokið - því miður. Svona er veiðin, brögðóttur andskoti.

Kolbeinar héldu úr bænum úr glampandi sól og sumaryl á sunnudagseftirmiðdegi, glaðir í bragði og graðir í fisk. Veiðislóðir morgundagsins við Baugstaðaós voru kannaðar áður en haldið var í hús veiðikóngsins Sigga Sveins, laxaspillis Suðurkjördæmis (og jafnvel ,,Kragans" líka). Þar fékk Kolbeinn hlass af yndislegum pönnukökum til að maula við árbakkann. Þá var haldið að veiðislóðum fyrri dagsins, Vola. Við blasti fallegt og gott veiðihúsið. Drengirnir hnýttu tauma þar sem Kolbeini Sigurði var úthúðað fyrir að kunna ekki að hnýta almennilegan veiðihnút. Fyrsti brennivínsumgangurinn var farinn og skálað var fyrir heilögum Kolbeini. Síðan var haldið niður að árbakka. Drengirnir reyndu að fiska - hann var þarna blessaður en lét sér nægja að narta í girnilegan maðkinn. Já, hann lætur ekki að sér hæða, Volafiskurinn.

Fyrsti anginn sem lét loks undan var væn bleikja sem reynsluboltinn Kolbeinn Sölvi náði á land. Henni var rúnkað og þurrkúkað að hætti hússins. Ritari verður að játa að ekki man hann hvort þessi frumburður landaðist á sunnudegi eða mánudegi. Enda hvaða máli skiptir það svo sem?

Í miðnætursólinni steiktu Kolbeinar síðan kjöt á grilli og borðuðu kartöflur og salat með. Svo skáluðu þeir fyrir Kolbeini og ekki síður samúðarskál fyrir þeim Kolbeini Bjarka og Kolbeini Aðalsteini sem húktu grátandi og norpandi í Skítamörku á meðan á gamninu stóð. Aumingja þeir. Svo var haldið skákmót Kolbeins þar sem að Kolbeinn Sigurður varð þriðji-fyrstur. Kolbeinn Hjörtur varð næstsíðastur og Kolbeinn Sölvi í sæti fyrir ofan hann.

Daginn eftir var áfram veitt. Kolbeinar máttu enn bíða nokkuð aflans langþráða. Ferð uppeftir veiðistaðnum skilaði engu nema lagstúf við Kolbeinsvísuna og ævintýri sem Kolbeinn Sigurður lenti í. Jú, og óteljandi pikkfestingum við útfallið undir brúnni hjá Kolbeini Hirti og Kolbeini Sölva. Glæsileikinn kom hins vegar í lok veiðidags við Vola. Kolbeinn Hjörtur egndi þá meistaralega fyrir fiskinn með því að festa agnið undir stórum steini. Þá kom í ljós það sem stundum hefur verið sagt að oft er fiskur undir steini. Kolbeinn Hjörtur var nefnilega ekki fyrr búinn að labba niður að á aftur til að klippa á þráðinn en hann fann hreyfingu. Spólgraður lítill sjóbirtingur hafði látið heillast af því að verða fiskur undir steini og beit á. Kolbeinn Hjörtur dró fiskinn á land og naut við það taumlausrar aðdáunar annarra Kolbeina og sjálfs laxaspillis suðursins sem kominn var til að kanna slóðir drengjanna eina örskotsstund.

Eftir þessa gleði var uppi typpið á Kolbeinum. Þeir héldu að Baugstaðaós og fluttu þar inn í nýtt hús. Eftir bollaleggingar um nýtingu hússins og gólfefnið bjuggu menn sig upp með samlokum og staupum og héldu niður að ós. Vöðlulaus Kolbeinn Hjörtur naut faðms Kolbeins Sölva yfir hylina svo að hann yrði nú ekki blautur í fæturna. Niðri við ós ríkti fegurðin ein og fjörufuglar sungu yfir og allt um kring. En ekki nægði það til. Það var fjara og þar með enginn sjóbirtingur í sjónmáli. Enginn varð var. Drengirnir héldu heim á leið, örlítið hnuggnir yfir veiðileysinu en sáttir almennt. Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Sölvi köstuðu lélegum nýmóðins frisbídisk á milli sín eins og Kolbeini einum er lagið. Diskdraslið lét undan á endanum og þá héldu Frisbí-Kolbeinar í hús þar sem Kolbeinn Hjörtur hafði fírað upp í grilli fyrir aðra kjötveisluna. Hún tókst með miklum ágætum. Svo var aftur skálað og enn einu sinni.

Síðasta dag veiðiferðar Kolbeins var líkama Kolbeins Hjartar ofviða eftir allt volkið. Hinir Kolbeinarnir tveir héldu þó niður að ós. Nú var farið að flæða að og því var von. Meira að segja selurinn var farinn að bíða jafneftirvæntingarfullur og Kolbeinn eftir girnilegum boltunum. En enn lét blessaður anginn bíða eftir sér. Kolbeinar Sigurður og Hjörtur þurftu að halda í bæinn þannig að veiðiferð lauk formlega með faðmlagi þriggja Kolbeina og húrrahrópnum fyrir fluguveiðimeistara Íslands par excellance. Eins og áður sagði átti Kolbeinn Sölvi síðan glæsilegan eftirmála. En unaðslegri Kolbeinsferð var lokið. Nú bíða Kolbeinar bara næstu ferðar. Þangað til orna þeir sér við minningarnar og svo allar (m)yndirnar sem væntanlegar eru á myndasíðu Kolbeins. Fylgist með!

posted by Siggi on 5/10/2004 09:16:00 AM

Örlítið auknar líkur á Kolbeinsferð í sumar!

29. 3. 2004
Já, ekkert er víst víst í þessum heimi (víst!). Ekki einu sinni hvernig fer um Vola- og/eða Baugstaðaóssferð Kolbeins í sumar. Þó má segja frá því að líkurnar á því að af draumaferðinni geti orðið, ja þær hafa nú bara aukist talsvert!
Þannig er í pottinn búið að Kolbeinn Sölvi hefur fest Kolbeini daga á svæðinu í Júní-mánuði. Og þá ræðst það bara af því hvort Kolbeinar geta mætt hvort af veiðiferð getur orðið. Spennan magnast!

posted by Siggi on 3/29/2004 05:04:00 PM

Vola- og/eða Baugstaðaóssferð???
- mögulega, hugsanlega, kannski -

23. 2. 2004
Það tekur á að vera dreifður um byggðir heimsins. Þessari raun stendur Veiðifélagið Kolbeinn frammi fyrir þessi misserin þegar að litlu tittirnir hans Kolla gamla eru úti um allar strandir, hver í sínu horninu - bara eins og fiskarnir blessaðir sem synda um heimshöfin sjö en koma síðan alltaf aftur upp í íslensku árnar hjartkæru, heimkynnin, til að njóta sumarsins og blíðunnar. Það hefði maður nú haldið!
Allt þetta verður til þess að vonin er lítil til þess að Kolbeinar nái nú allir að sameinast í yndislegri veiðiferð - annað sumarið í röð. Já, slæmt er það.
Þrír Kolbeinar munu nú samt sem áður reyna sitt besta, þeir Kolbeinn Hjörtur, Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Sölvi. Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Hjörtur ræddu málið með hjálp nútímatækni, hvor í sínu landinu í vikunni sem leið. Niðurstaðan var sú að önnur Vola- og/eða Baugstaðaóssferð, nú í júní, væri fyrirtakshugmynd. Hindranir eru þó í veginum fyrir þessari fallegu draumsýn. Þær helstar að Kolbeinar Hjörtur og Sölvi vita ekki fyrir víst hvenær þeir verða á landinu fallega í júnímánuði og treysta sér því ekki til þess að festa dag, enn sem komið er. Svo má líka vera að einhverjir veiðimannakolar og grásleppur séu búnir að hreppa alla þá veiðidaga sem Kolbeinn gæti hugsað sér að festa kaup á. En Kolbeinn vonar það besta.

posted by Siggi on 2/23/2004 11:31:00 AM

Ragnar litli gefur út bók
- ,,Strákurinn hefur rétta hugarfarið" -

12. 2. 2004
Kolbeinn gamli á fleiri áfjáða lærisveina en drengina sína litlu og fallegu í veiðifélaginu Kolbeini. Einn mesti aðdáandi gamla mannsins er krúttilegur glókollur sem heitir Ragnar Hólm. Raggi litli er mikill veiðimaður og hefur nú skrifað heila bók um veiðiskapinn og heita herlegheitin ,,Fiskar og menn". Auðvitað mælir ,,flugnahöfðinginn aldni", gamli Kolbeinn með sínum yngissveini og segir á bókarkápu: ,,Mér leið vel við lestur þessarar bókar. Strákurinn hefur rétta hugarfarið." Orð að sönnu enda hefur Ragnar Hólm verið duglegur að læra heima og iðinn við að bera stangirnar og fluguboxin fyrir gamla manninn. Og nudda svo úr honum þreytuna á kvöldin heima í kofa. Hvað gera menn ekki fyrir fluguveiimann Íslands par excellance? Ha?!

posted by Siggi on 2/12/2004 01:46:00 PM

Kolbeinar allir sem einn á heimahögum!!!
- Veeeeeeeeeeeiii!!! -

2. 1. 2004
Þau unaðslegu tíðindi bárust Kolbeini gamla til eyrna í morgun að Kolbeinn Hjörtur hefði smokrað sér óvænt til Íslandsins góða rétt áður en kirkjuklukkurnar hringdu inn nýja árið. Þetta finnst Kolbeini nú aldeilis stórglæsilegt enda þýðir þetta bara eitt; Kolbeinar eru í fyrsta skipti í nokkur misseri allir sameinaðir á gamla landinu góða. Reyndar ekki allir í sama landshluta, Kolbeinn Aðalsteinn vakir yfir vökum vatna á Norðurlandi meðan að hinir Kolbeinarnir halda sig á fiskislóðum Gullbringu- og Kjósarmanna.
En eins og oft er um verma þá er þessi skammgóður því að strax á sunnudaginn kemur missir Kolbeinn hinn bjarta og ljúfa Kolbein Bjarka til dansks mýrlendis og ruslmenningar og um svipað leyti heldur Kolbeinn Aðalsteinn á sömu slóðir. Síðan taka niðurlenskir andskotar Kolbein Hjört frá gamla veiðimanninum líka og þá eru þeir bara eftir Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Sölvi.
En syrgjum ekki fáliðaða framtíð heldur fögnum núinu og endurtökum æ ofan í æ: Kolbeinar eru sameinaðir á fiskilandinu góða. Húrra fyrir því!!!

Og af þessu tilefni er ekki úr vegi að rifja upp Kolbeinsvísuna góðu sem að Kolbeinn Sigurður barði saman í tilefni Vola- og Baugstaðaóssferðarinnar eftirminnilegu á vori sem leið. Kolbeinar tralli síðan saman allir sem einn:

Kolbeinsvísa
Við viljum rúnk og þurrkúk á bráðinni,
byggjum á virðingu og ást í veiðinni.
Við fylgjum fordæmi hins fengsæla veiðimanns
og erum Kolbeinar kátir, par excellance.

Kooolbeinn!
Kooolbeinn!
Kolbeinar kátir, par excellance.

Kooolbeinn!
Kooolbeinn!
Kolbeinar kátir, par excellance.

(Endurtekið aftur og aftur. Og síðan aftur.)



posted by Siggi on 1/02/2004 02:17:00 PM

Gleðilegt veiðiár, segir Kolbeinn
28. 12. 2003

Kolbeinn gamli óskar sílunum sínum gleðilegs veiðiárs og þakkar fenginn á líðandi ári. Á árinu 2003 stendur upp úr, eins og bolti innan um smáseyði, hin frábæra veiðiferð þriggja Kolbeina í Vola og Baugstaðaós um miðjan maímánuð. Ferðin var vægast sagt alsæll unaður yndisleikans. Vægast sagt!
Árið einkenndist annars af útlegðum of margra Kolbeina; Kolbeinn Bjarki og Kolbeinn Aðalsteinn þurftu að bíta í það súra danska epli að húka í Köbenhávn allt árið og Kolbeinn Hjörtur neyddist til þess að fórna haustveiðiskapnum því að Amsterdammur tosaði hann tilneyddan til sín. Ljót borg og frek, Amsterdam. Kolbeinarnir fimm náðu því ekki saman allir sem einn á árinu, nema í anda auðvitað og í góðum draumum.
Það er vonandi að næsta ár verði ár samverunnar hjá Kolbeinum; þeir hittist blessaðir, fari í veiðitúr og endurupplifi dýrð Kolbeins, dýrð fisksins og dýrð hinnar íslensku óspilltu náttúru. Og dýrð Guðs. Nema bara hvað?!

Gleðilega veiðitíð og þökk fyrir liðna fengitíma.

Virðingarfyllst,
Kolbeinn

posted by Siggi on 12/28/2003 01:13:00 PM

Hamhleypan Kolbeinn Sölvi
21. 10. 2003

Kolbeinn Sölvi er hörkutól þegar kemur að veiðinni (og fleiru reyndar svo sem líka, það er ekki það). Drengurinn smellti sér langt austur fyrir fjall um síðustu helgi með sjálfum laxaspilli Suðurlands, honum föður sínum. Þó að langt sé liðið á haust létu feðgarnir það ekki á sig fá heldur renndu fyrir og væntu góðs. Og hvílík aflabrögð; laxar og aðrir feitir fiskar flugu á land í tugatali. Matarkista laxaspillisins á Selfossi er nú fleytifull af fiski sem duga mun í soðið alla mánudaga fram í febrúar.
Já, það er ekki að spyrja að þeim veiðifeðgum. Kolbeinn er stoltur af sínum manni; áfram svona drengur!

posted by Siggi on 10/21/2003 11:12:00 AM

Volamyndirnar góðu

VOLAMYNDIRNAR einu og sönnu eru hér. Þær voru dottnar út enda alveg síðan í vor. Nú eru þær orðnar í fyrirrúmi aftur. Njótið vel, lömbin mín!

posted by Siggi on 9/10/2003 05:36:00 PM

Kolbeinn Hjörtur orðinn 27 ára!
- Það er að togna úr stráksa -

4. 9. 2003
Í gær var merkisdagur. Sérstaklega var hann merkilegur fyrir einn fimmta hluta Veiðifélagsins Kolbeins, þ.e. hann litla Kolbein Hjört. Haldið þið að hann sé ekki bara orðinn 27 ára, blessaður hnokkinn? Jújú, og ber aldurinn þetta líka vel.
Kolbeinn Hjörtur húkir nú í hóruborg suður í henni Evrópu. Þar er hann að klífa Babelsturninn í von um að verða fullnuma í málvísindum þessa heims (og hugsanlega annars). Hann er þar einn, grey strákurinn. Engir veiðifélagar til að súpa á brennivíni með, engin stöng til að fanga spriklandi bolta og engir grænir árbakkar til að sitja á.
En afmæli hressa. Kolbeinn sendir stráknum sínum þessar líka stuðkveðjurnar í tilefni dagsins (í gær) og þakkar allar angurværar samverustundir. Guð blessi drenginn. Hann lengi lifi!
Húrra! Húrra! Húrra! Húrraaaaaa!!!

posted by Siggi on 9/04/2003 10:42:00 AM

Kolbeinn fordæmir!

20. 8. 2003
Já, Kolbeinn sagði það! Umhverfisslysin eru yfirvofandi þegar hið fjarstæðukennda laxeldi í sjókvíum er annars vegar. Flónin sem fyrir þessum ósköpum standa hafa birst hofmóðug hvað eftir annað og þóst viss um það að allt sé öruggt og að væl kollega Kolbeins í veiðistéttinni sé bara hystería og þvæla. Hvað gerist svo? Gat kemur á kví og viðbjóðslegur sjókvíalax frá einhverju útlandi sleppur út og gerir sig sjálfsagt líklegan í framhaldinu til að hössla aumingja íslensku náttúrulegu laxana sem hvergi mega vamm sitt vita.
Kolbeinn fordæmir. Kolbeinn vill sem mesta kynblöndun mannfólks. Hins vegar vill hann ekki sjá það að íslensku vatnalífríki sé spillt og að á það herji jafn klígulegar árásir og frá litlum og ljótum eldislöxum. Svei bara!

posted by Siggi on 8/20/2003 03:44:00 PM

Kolbeinar koma og fara

18. 8. 2003
Já, það er aldeilis fararsniðið á Kolbeinunum blessuðum þessa dagana. Kolbeinn Bjarki hélt heljarinnar veislu til að fagna bryllúpi sínu á föstudagskvöldið var. Kolbeinns Sigurður var fenginn til að stýra veislunni og Kolbeinar Sölvi og Hjörtur voru líka mættir til að samfagna drengnum sínum nýgifta. Veiðifélagið Kolbeinn gerðist svo rausnarlegt að splæsa í heljarinnar háf og önglabox fyrir brúðgumann og vonar Kolbeinn nú að græjurnar nýtist Kolbeini Bjarka til frekar aflabragða en hingað til hafa verið.
Ekki entist himnavist samverunnar lengi hjá Kolbeinum því að í gærdag tók Kolbeinn Hjörtur upp á því að stinga veiðilandið eina af til þess eins að dvelja veturlangt, og jafnvel lengur, í flatneskju og ónáttúru Amsterdamms. Þar finnst ekkert nema forug síki, mengaðir pollar og fjörur fullar af eiturlyfjum og smyglvarningi. Kolbeinn Hjörtur ætlar því væntanlega að leggja á sig þessa heljarvist til þess að uppgötva enn betur en áður hvílíkt gósenland það er sem ól hann og fóðraði. Hann kemur því væntanlega heim aftur til veiðieyjunnar miklu í vor aftur, kjökrandi eftir góðri veiðiferð til að bæta sér upp allan ósómann og viðbjóðinn sem hann varð vitni að í útlandinu ljóta.
Og svo fer Kolbeinn Bjarki sömu leið til annars ljóts lands en hittir þar hins vegar fyrir fallegan mann, hann Kolbein Aðalstein sem nú grætur yfir þrælkun sinni í þvottafabrikkuvinnubúðunum. Og þá eru þeir aðeins eftir, Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Sölvi. Haldiða sé nú! Fussum svei!



posted by Siggi on 8/18/2003 01:53:00 PM

Kolbeinn Bjarki kemur heim og heldur veislu!
- En Kolbeinn Aðalsteinn grætur einn í Danmörku

Já, það er ekkert annað! Kolbeinn Bjarki er á leiðinni til landsins til að fagna því með eiginkonu sinni (skrýtið að segja þetta) að þau séu orðin hjón. Þá verður aðeins einn Kolbeinn eftir í skítabrælu útlandanna, hann aumingja Kolbeinn Aðalsteinn. Hann verður fjarri góðu gamni, veiðisögum og sprelli á föstudaginn kemur þegar að fjórir Kolbeinar af fimm samfagna með honum litla Kolbeini Bjarka sínum. Kolbeinn Aðalsteinn verður því að orna sér við minningarnar einar um unaðslegar veiðireisur meðan að hann hengir upp lök í þvottafabrikku í klukkutímalestarfjarlægð frá Kaupmannahöfn. Já, misjafnt er mannanna lán.

posted by Siggi on 8/12/2003 03:12:00 PM

Kolbeinn Hjörtur fór á dögunum í veiðiparadísina við Reynisvatn. Tók hann með sér veiðistöng og slatta af maðki, auk þess félaga sinn, Stein. Eftir að hafa setið á bakkanum í dágóða stund ákváðu félagarnir að taka á leigu bát til að róa út á vatnið. Ekki var að spyrja. Um leið og út á mitt vatnið var komið fór að bera á lífi í því og áður en leið á löngu var kominn í bátinn vænn regnbogasilungur, 1,5 pund. Á næsta klukkutímanum bættust tveir slíkir við og svo undir lokin sá stærsti, boltafiskur, 2,5 pund. Það var því sæll Kolbeinn Hjörtur sem renndi heim þá um kvöldið. Daginn eftir var svo haldin silungsveisla mikil. Ó, Guð, hvílík gleði.

posted by Spartakus on 7/28/2003 10:43:00 AM

Reynisvatnsreisa Kolbeins Hjartar - annar hluti

20. 6. 2003
Kolbeinn Hjörtur virðist vera upptekinn við lítið annað þessa dagana en að leggja í hvern leiðangurinn eftir annan upp á hálendi Reykjavíkur til að fiska í soðið. Drengurinn atarna er búinn að verða sér út um kvóta, bara eins og sannur Samherjabróðir. Kvótinn hljóðar reyndar einungis upp á fimm fiska en einhvers staðar er allt fyrst. Kolbeinn Hjörtur hefur reyndar gerst svo stórmannlegur að ákveða að verði kvóti hans ekki uppurinn fyrir námsför hans með haustinu skuli hann erfa Veiðifélagið Kolbein að honum. Kolbeinn Hjörtur er maður enn meiri í augum Kolbeins eftir þetta fallega og rausnarlega vilyrði. Kolbeinn vonar nú samt innst inni að blessaður anginn geti nýtt sér kvótann sjálfur að fullu og státað af glæsilegum aflabrögðum. Þau verða svo efni í frækilegar veiðisögur þær sem hann mun nota sér til framfæris í samskiptum sínum við hollenskar skvísur þegar hausta tekur og húmar að í Amsterdammi. Þá stenst enginn stærilæti Hjartarins.

posted by Siggi on 6/20/2003 03:17:00 PM

Reynisvatnsreisa Kolbeins Hjartar

10. 6. 2003
Kolbeinn Hjörtur hélt í mikla veiðireisu fyrir viku eða svo. Áningarstaðurinn var Reynisvatn uppi á hálendi Reykjavíkur. Ekkert hefur frést af aflabrögðum drengsins og þegar að heimasíða Kolbeins leitaði til hans voru svör veiðiangans þau einu: ,,Fæst orð bera minnsta ábyrgð."
Ekki er gott að vita hvort túlka eigi þessi vísu orð sem skefjalausa hógværð og að Kolbeinn Hjörtur hafi í raun hálftæmt vatnið af fiski eða að aflabrögðin hafi valdið Kolbeini Hirti þvílíkum vonbrigðum að hann vilji engum segja og sem minnst af reisunni vita. En eitt er þó víst, ekkert jafnast á við Kolbeinsferð og skiptir þá engu hvort mokað er á land eða hvergi vaki nokkur einasta branda. Það er félagsskapurinn sem Kolbeinn sækir í og hinn andlegi þroski.

posted by Siggi on 6/10/2003 02:19:00 PM

Veiðimyndir úr unaðslegri Vola og Baugstaðaóssferðinni
- Ooohhh...! OOOOooooOOOoooooOOOHHH!!!

3. 6. 2003
Loksins loksins! var eitt sinn sagt af merku tilefni. Kolbeinn segir hins vegar: Loksins loksins loksins loksins loksins loksins!!! Og loksins! Kolbeinsmyndir veiðitúrsins í Vola og Baugstaðaós eru nefnilega komnar á tölvutækt form. Ekki þó þannig að þær séu komnar alla leið inn á Kolbeinsvefinn en það gerist í fyllingu tímans og þangað til verða ólmir aðdáendur Kolbeinsvefsins að bíða spakir. Þeir sem hins vegar ekki geta stillt sig geta ýtt HÉR og fengið generalprufu af (m)yndunum unaðslegu. Þar spóka sig þrír getnaðarlegir Kolbeinar og unaðslegir hnullafiskar þeirra. Ohhh...!
Annars er það að frétta að Kolbeinssíðan fékk afar jákvæð ummæli frá Rögnu læknadóttur Gúndadóttur, frænku Kolbeins Sölva. Léttperraleg skrif gamla mannsins voru henni að skapi svo og meitluð kímni hans. Hann lætur ekki að sér hæða, gamli karlinn. Svo er hann líka svo helvíti fiskinn!
Að lokum skal þess getið að þegar að þetta er skrifað er Kolbeinn Hjörtur að reyna fyrir sér með stöngina í óbyggðum Reynisvatns, lengst uppi á hálendi Reykjavíkur. Kolbeinn heitir á Guð að litla drengnum sínum gangi nú vel og að hann moki vænum boltum á land. Beygi svo af þegar að aflinn blasir við honum og honum er ljóst hversu lífið er gott og almættið er gjafmilt. Amen!

PS: Samúðarkveðja til veiðilausu skítalandanna Danmerkur og Spánar, þar sem Kolbeinar Aðalsteinn, Bjarki og Sölvi húka (rímar við dónalegt orð) nú. Í báðum þessum löndum er mengun og þeim er stjórnað af stríðsóðum fasistum: Öðru af manni sem heitir María Asni (María er konunafn!) og hinu af manni sem heitir Fogh Rassgatssen. Herðið upp hugann, strákar mínir. Þetta verður allt í lagi. Kolli gamli hugsar til ykkar og strýkur ykkur til sefunar í huganum. Svooona, svona.

posted by Siggi on 6/03/2003 07:39:00 PM

Veiðisaga Vola og Baugstaðaóss
- aflinn rýr en samveran er fyrir öllu -

14. 5. 2003
Jæja þá! Þá er vel heppnaðri Kolbeinsferð þriggja Kolbeina af fimm lokið. Aflinn ef til vill ekki til að metta heila stórveislu en það er nándin við fiskinn og hver annan sem skiptir Kolbein meira máli en mokafli sem slíkur. Þrír unaðslegir boltar náðust þó á land. Þá eru ótalin eftirköst Kolbeins Sölva sem varð eftir þegar hinir drengirnir tveir héldu í bæinn. Þá náði hann heilum fimm hlussufiskum. En þá var Kolbeinsferð formlega lokið - því miður. Svona er veiðin, brögðóttur andskoti.

Kolbeinar héldu úr bænum úr glampandi sól og sumaryl á sunnudagseftirmiðdegi, glaðir í bragði og graðir í fisk. Veiðislóðir morgundagsins við Baugstaðaós voru kannaðar áður en haldið var í hús veiðikóngsins Sigga Sveins, laxaspillis Suðurkjördæmis (og jafnvel ,,Kragans" líka). Þar fékk Kolbeinn hlass af yndislegum pönnukökum til að maula við árbakkann. Þá var haldið að veiðislóðum fyrri dagsins, Vola. Við blasti fallegt og gott veiðihúsið. Drengirnir hnýttu tauma þar sem Kolbeini Sigurði var úthúðað fyrir að kunna ekki að hnýta almennilegan veiðihnút. Fyrsti brennivínsumgangurinn var farinn og skálað var fyrir heilögum Kolbeini. Síðan var haldið niður að árbakka. Drengirnir reyndu að fiska - hann var þarna blessaður en lét sér nægja að narta í girnilegan maðkinn. Já, hann lætur ekki að sér hæða, Volafiskurinn.

Fyrsti anginn sem lét loks undan var væn bleikja sem reynsluboltinn Kolbeinn Sölvi náði á land. Henni var rúnkað og þurrkúkað að hætti hússins. Ritari verður að játa að ekki man hann hvort þessi frumburður landaðist á sunnudegi eða mánudegi. Enda hvaða máli skiptir það svo sem?

Í miðnætursólinni steiktu Kolbeinar síðan kjöt á grilli og borðuðu kartöflur og salat með. Svo skáluðu þeir fyrir Kolbeini og ekki síður samúðarskál fyrir þeim Kolbeini Bjarka og Kolbeini Aðalsteini sem húktu grátandi og norpandi í Skítamörku á meðan á gamninu stóð. Aumingja þeir. Svo var haldið skákmót Kolbeins þar sem að Kolbeinn Sigurður varð þriðji-fyrstur. Kolbeinn Hjörtur varð næstsíðastur og Kolbeinn Sölvi í sæti fyrir ofan hann.

Daginn eftir var áfram veitt. Kolbeinar máttu enn bíða nokkuð aflans langþráða. Ferð uppeftir veiðistaðnum skilaði engu nema lagstúf við Kolbeinsvísuna og ævintýri sem Kolbeinn Sigurður lenti í. Jú, og óteljandi pikkfestingum við útfallið undir brúnni hjá Kolbeini Hirti og Kolbeini Sölva. Glæsileikinn kom hins vegar í lok veiðidags við Vola. Kolbeinn Hjörtur egndi þá meistaralega fyrir fiskinn með því að festa agnið undir stórum steini. Þá kom í ljós það sem stundum hefur verið sagt að oft er fiskur undir steini. Kolbeinn Hjörtur var nefnilega ekki fyrr búinn að labba niður að á aftur til að klippa á þráðinn en hann fann hreyfingu. Spólgraður lítill sjóbirtingur hafði látið heillast af því að verða fiskur undir steini og beit á. Kolbeinn Hjörtur dró fiskinn á land og naut við það taumlausrar aðdáunar annarra Kolbeina og sjálfs laxaspillis suðursins sem kominn var til að kanna slóðir drengjanna eina örskotsstund.

Eftir þessa gleði var uppi typpið á Kolbeinum. Þeir héldu að Baugstaðaós og fluttu þar inn í nýtt hús. Eftir bollaleggingar um nýtingu hússins og gólfefnið bjuggu menn sig upp með samlokum og staupum og héldu niður að ós. Vöðlulaus Kolbeinn Hjörtur naut faðms Kolbeins Sölva yfir hylina svo að hann yrði nú ekki blautur í fæturna. Niðri við ós ríkti fegurðin ein og fjörufuglar sungu yfir og allt um kring. En ekki nægði það til. Það var fjara og þar með enginn sjóbirtingur í sjónmáli. Enginn varð var. Drengirnir héldu heim á leið, örlítið hnuggnir yfir veiðileysinu en sáttir almennt. Kolbeinn Sigurður og Kolbeinn Sölvi köstuðu lélegum nýmóðins frisbídisk á milli sín eins og Kolbeini einum er lagið. Diskdraslið lét undan á endanum og þá héldu Frisbí-Kolbeinar í hús þar sem Kolbeinn Hjörtur hafði fírað upp í grilli fyrir aðra kjötveisluna. Hún tókst með miklum ágætum. Svo var aftur skálað og enn einu sinni.

Síðasta dag veiðiferðar Kolbeins var líkama Kolbeins Hjartar ofviða eftir allt volkið. Hinir Kolbeinarnir tveir héldu þó niður að ós. Nú var farið að flæða að og því var von. Meira að segja selurinn var farinn að bíða jafneftirvæntingarfullur og Kolbeinn eftir girnilegum boltunum. En enn lét blessaður anginn bíða eftir sér. Kolbeinar Sigurður og Hjörtur þurftu að halda í bæinn þannig að veiðiferð lauk formlega með faðmlagi þriggja Kolbeina og húrrahrópnum fyrir fluguveiðimeistara Íslands par excellance. Eins og áður sagði átti Kolbeinn Sölvi síðan glæsilegan eftirmála. En unaðslegri Kolbeinsferð var lokið. Nú bíða Kolbeinar bara næstu ferðar. Þangað til orna þeir sér við minningarnar og svo allar (m)yndirnar sem væntanlegar eru á myndasíðu Kolbeins. Fylgist með!

posted by Siggi on 5/14/2003 07:23:00 PM

Kolbeinsvísa, par excellance!

8. 5. 2003
Já, ekki er úr vegi að bregða sér á skáldfákinn svona rétt fyrir fyrstu Kolbeinsferð ársins. Kannski Kolbeinsdrengir geti dundað sér við það saman í veiðikofa að búa til hressilegt lag við þennan uppörvandi ljóðstúf:

Við viljum rúnk og þurrkúk á bráðinni,
byggjum á virðingu og ást í veiðinni.
Við fylgjum fordæmi hins fengsæla veiðimanns
og erum Kolbeinar kátir, par excellance.

posted by Siggi on 5/08/2003 07:22:00 PM

Ormatínsla

8. 5. 2003
Hvað sannar betur geðveiki hins veiðióða manns en það að vaka langt fram eftir nóttu og skríða eins og leikskólabarn um garða með vasaljós og fötu í hellirigningu í leit að ánamöðkum? Fátt. En þetta var nú samt það sem Kolbeinn Sigurður lét sig hafa í snemma í gærnótt og skeytti þá engu um það að í næsta húsi væri tilvonandi forsætisráðfrú þjóðarinnar hugsanlega að fylgjast með úr svefnherbergi sínu. Uppskera veiðidrengsins var nú ekki sérlega beysin; einungis u.þ.b. fimmtán maðkar voru komnir í fatið þegar hann gafst upp á iðjunni. Allir voru maðkarnir þó vel vænir og hefðu flestallir uppfyllt hina eftirsóttu nafnbót laxamaðkar að mati þess sem tíndi.
Ljóst er þó að mun betur má ef duga skal. Kolbeinn Sigurður er þó á því að alveg eins megi fórna nokkrum hundraðköllum í ormakaup í stað þess að leggja í annan leiðangur.

posted by Siggi on 5/08/2003 05:15:00 PM

Styttist í fyrstu Kolbeinsferð ársins.

posted by Spartakus on 5/04/2003 08:42:00 PM

Kolbeinn Bjarki orðinn eiginmaður!

4. 5. 2003
Heimasíða Veiðifélagsins Kolbeins hefur komist að því, á undan Séðu og heyrðu, að Kolbeinn Bjarki gerði sér lítið fyrir í gærdag og gifti sig í henni Kóngsins Kaupmannahöfn. Ljónheppin eiginkona drengsins er hún Hildur, sem væntanlega fer nú að ganga undir nafninu fru Valtysson í Danaveldi, eða hvað?
Kolbeinn óskar stráknum sínum innilega til hamingju og vonar og veit að hjónabandið á eftir að reynast þeim skötuhjúunum endalaus uppspretta eintómrar hamingju og gleði.

posted by Siggi on 5/04/2003 04:53:00 PM

Spólgraðir birtingar mokast á land!
- ...og fleygur með rommi í innan seilingar -

2. 5. 2002
Í gær bárust af því fréttir að nokkrir veiðifíklar hefðu skrópað í göngur kommúnista í bæjum og þorpum og verið viðstaddir opnun veiðisvæðis Vola. Þrátt fyrir örlítið hret undu flestir hag sínum vel, ekki síst þegar að sprellfjörugir sjóbirtingar tóku að mokast á land. Ekki færri en sex boltar bitu á agn frumherjanna. Þetta ýtir undir eftirvæntingu Kolbeins en sem kunnugt er, heiðrar Kolbeinn veiðisvæði Vola með nærveru sinni 11.-13. maí næstkomandi.
Við þetta má því bæta að Kolbeinn Sigurður hitti Kolbeinn Hjört í kommúnistagöngu í gærdag. Veiðin barst í tal enda öllu skemmtilegra umræðuefni en kjarabarátta. Þar tjáði Kolbeinn Hjörtur Kolbeini Sigurði að hann hefði nú hug á að fjárfesta í ýmsum veiðivopnum og -verjum, einkum góðu vesti sem geyma má allt í, jafnvel lítinn fleyg með rommi í. Kolbeinn Hjörtur talaði reyndar ekkert um fleyg með rommi í en Kolbeinn Sigurður lét sig engu að síður dreyma.
Kolbeinar munu væntanlega hittast í næstu viku til að bera saman stangir sínar og huga að vænum beitum og ögnum. Ekki má gleyma svifdisknum blessuðum, því að Kolbeinn er ekki bara veiði; Kolbeinn er líka frisbí.
Nú eru ekki nema örfáir dagar í unaðinn og alsæluna. Veeeiii!!!

posted by Siggi on 5/02/2003 03:24:00 PM

Aflatúr í Volann og Baugstaðaós

25. 4. 2003
Þá er það ákveðið! Veiðifélagið Kolbeinn hefur veiðisumarið 2003 með aflatúr í Volann og Baugstaðaós 11.-13. maí næstkomandi. Því miður ríkir það auma ástand enn að Kolbeinn Aðalsteinn og Kolbeinn Bjarki eru fangelsaðir í fasistaríki Adrésar Fogh Skíðesen öfgahægrisvíns Baunaveldis. Kolbeinn sendir þeim þjáningarbræðrum samúðarkveðjur. Aðrir Kolbeinar láta þó ekki hugfallast heldur halda uppi merki vina sinna. Kolbeinn Sigurður, Kolbeinn Hjörtur og Kolbeinn Sölvi eru allir orðnir sperrtir af tilhlökkun eftir aflatúrnum og stefna ótrauðir á það að fanga nokkra lífsglaða sjóbirtinga nýgengna upp í íslenska legi. Ekki síður hlakka drengirnir til samverunnar hver við annan og endurnýjaðra kynna við unaðssemdir sumarhallarinnar Íslands. Og Guðs.

Vilji menn fá örlítið forskot á veiðisælu Kolbeins er um að gera að kynna sér leiksvið alsælunnar á heimasíðu Volans og Baugstaðaóss. Ohhh...

Því má svo bæta við að lokum að samverustund Kolbeins að vori tókst frábærlega, svo vægt sé til orða tekið. Mikið um vináttu og karlmannlega nánd, mikið um veiðisögur. Þannig á Kolbeinn að vera. Það segir Guð.

posted by Siggi on 4/25/2003 06:47:00 PM

Veiðisögur og veiðiljóð

9. 4. 2003
Kolbeinn nýtur þeirrar einstöku gæfu að hafa innan sinna raða hrifnæma listamenn sem bresta í taumlausa og villta tjáningu þegar síst varir. Slíkir transar henda eðlilega oft við jafn magnaðar kringumstæður og í veiðiferðum. Verða þá til heilu myndbandsverkin af stæltum líkömum, skissur af stærðarinnar fjallahringjum, spontant ljóðrænar þulur á segulband um kríuna eða ruslapokagjörningar (þar sem ruslapokar eru tættir í smæstu flygsur í leit að kjötkryddi - sérgrein Kolbeins Aðalsteins).

Af þessu gefna tilefni hvetur Kolbeinn sína ástkæru drengi til að leggja nú af mörkum veiðisögur eða veiðiljóð til að kalla fram hinn natúralíska anda veiðisumarsins. Besta verkið má síðan verðlauna á góðri stundu og geta verðlaunin verið allt frá glæsilegri golden spider-flugu til verðmæts Spotty-Sheriff-spúns með tvöfaldri tálknakrækju og húkk.

posted by Siggi on 4/09/2003 06:01:00 PM

Vorið er komið og angarnir sprikla...
- vorfundur Kolbeins-

9. 4. 2003
Nú þegar að vor er í lofti og fréttir eru teknar að berast um væna sjóbirtinga hér og þar er ekki örgrannt um að hold Kolbeins harðni ögn af spennu og eftirvæntingu við innilegar samverustundir við spriklandi boltana í vötnum og ám landsins. Því þykir Kolbeini ráð að drengirnir hans fari nú að mæla sér mót til að deila sínum vonum og þrám til veiðisumarsins 2003. Kolbeinn leggur til komandi helgi og óskar þess að þeir Kolbeinar (Kolbeinn Hjörtur og Kolbeinn Sölvi) sem dveljast hér á landi segi hvað þeim finnst nú um fund annað hvort að kvöldi föstudags nú eða laugardags. Kolbeinn Sigurður er tilbúinn til að hita upp sín híbýli til að blóta þar heilagan Kolbein. Milli dagskrárliða verður frumflutt hljóðlistaverk Kolbeins frá Sogsferð síðasta árs.

Kolbeinn Bjarki og Kolbeinn Aðalsteinn dveljast auðvitað sem fyrr í skítnum og ógeðinu í útlöndum þannig að þeir verða að gráta þau örlög sín. Ekki nema að þeir nýti sér nútímatækni og verði í beinu tölvusambandi á milli landa. Annars að skála bara í danskt túborg pissubrugg fyrir veiðikónginum alvitra og unaðslega.

Kolbeinn vonar að af þessum fundum verði og þar með sé vertíðin formlega skollin á og unaðurinn og gleðin tekin við af skammdegisdrunganum og klakabrynjunum. Og ástin ríki. Og Guð almáttugur.

posted by Siggi on 4/09/2003 05:38:00 PM

Bölmóður Kolbeins Hjartar

21. 3. 2003
Athygli er vakin á því að Kolbeinn Hjörtur hefur nú loks dömpað sínu fyrra nafni og er farinn að skrifa undir sínu yndislega alteregói veiðimannsins sem sannur Kolbeinn Hjörtur en ekki einhver Hjörtur Einarsson útí bæ. Á heimasíðu Kolbeins Hjartar eru viðraðar róttækar skoðanir hans á lífinu utan veiðinnar. Bölmóður er þar í fyrirrúmi enda er lífið lítið og ljótt utan árbakkanna. Það vitum við jú allir sem einn, Kolbeinarnir fögru. En með hækkandi sól og leysandi vötnum má vera að brúnin lyftist á Kolbeini Hirti og að svart yfirbragð vettvangs hans taki heiðgrænan eður trópíkal-rauðgulan bjarma Kolbeins. Það vonar Kolbeinn að minnsta kosti enda hugsar Kolbeinn til sinna drengja. Stattu þig, strákur!

Vorið er á næsta leyti og það þýðir bara eitt: Spriklandi boltar og unaðsemdir út í eitt.

Lífið, ástin, veiðin. Og Guð. Vitjið til!

posted by Siggi on 3/21/2003 12:25:00 PM

Veiði í gegnum vök

4. 2. 2003
Þrátt fyrir að allt sé í klakaböndum og að fagurlimaðir fiskar sjáist hvergi nokkurs staðar deyja Kolbeinar ekki ráðalausir. Þeir hyggjast ekki húka angistarfullir við glugga sína í borginni og bíða aðgerðarlausir þess að vötn leysi og silfraðir boltar sprikli og stökkvi um ár og vötn á nýjan leik. Ó, nei; ef fiskurinn kemur ekki til Kolbeins þá kemur Kolbeinn til fisksins! Slík er ástin og þráin eftir girnilegri bráðinni - og virðingin!

Kolbeinar eru nefnilega með á prjónunum að brjóta fyrir vök á ís og slengja svo vænu agni ofan í vatn og rækta þannig kynnin við nokkrar yndislegar murtur og jafnvel fáeina munúðarfulla silunga. Ættaróðal og sumarslot hins stórættaða Kolbeins Hjartar er vetrarhöll um þessar mundir. Hún stendur við bakka sjálfs Þingvallavatns og þangað kynnu Kolbeinar að halda á næstunni. Þar myndu þeir súpa á ylvolgu rommtoddíi, segja hver öðrum fræknar veiðisögur og leggja fram stórhuga áætlanir fyrir aflaleiðangra komandi vertíðar. En síðast en ekki síst - njóta samverunnar. Samveru veiðimanna og bráðar. Og Guðs.
Kolbeinn Bjarki og Kolbeinn Aðalsteinn verða þó fjarri öllu góðu og heilbrigðu gamni þar sem þeir hokra enn innan um mengun, firringu og glæpamenn í útlöndum. En Kolbeinn hugsar til sinna manna. Því þótt þú gleymir Kolbeini, þá gleymir Kolbeinn ekki þér!


posted by Siggi on 2/04/2003 05:20:00 PM

Flugur

3. 2. 2003
Veiðfélaginu Kolbeini hefur borist beiðni um að halda fluguhnýtinganámskeið. Ekki verður orðið við beiðninni að svo stöddu en á vordögum er ætlunin að fyrirlestraröð Kolbeins hefjist. Húrra!

posted by Spartakus on 2/03/2003 01:52:00 PM

Um veiðiþætti

15. 1. 2003
Nú í svartasta skammdeginu ganga engir fiskar upp í íslenska legi og því verða Kolbeinar að næra sína veiðifíkn á artifissjalskan máta. Það er meðal annars hægt að gera með því að horfa á veiðiþætti. Veiðispekúlantar hafa verið þeirrar gæfu aðnjótandi undanfarin ár að eiga að hina stórgóðu veiðiþætti Sporðaköst (þá má m.a. nálgast komplett á Borgarbókasafninu - hvar annars staðar?). Ekki mikið síðri er þáttaröðin Silungur á Íslandi sem gefin var út fyrir nýliðin jól. Sú syrpa hefur þann kost fyrir Kolbeina að beina spjótum sínum einungis að silungsveiðiskapnum sem óneitanlega er Kolbeinum hentugara mark í augnablikinu enda Kolbeinar fátækir menn þó fallegir séu.

Gæði þessara þátta ítrekast þegar gerður er samanburður við suma aðra veiðiþætti. Dæmi um slíkan samanburð er sænskur þáttur sem sýndur var í gærkvöld í Ríkissjónvarpinu. Steingeldara og leiðinlegra prógramm hefði vart verið hægt að búa til; allt var einstaklega ósjarmerandi og laust við þann rómantíska anda sem tekist hefur að fanga í íslenskum þáttunum.

Kolbeinn er því þess vegna ákaflega feginn að þurfa ekki að kynnast sænskum veiðifíflum við ár þar sem þyrlur ferja menn milli staða og laxinn er rifinn upp af jafnlítilli ástríðu og að mokað væri upp úr eldiskví. Kolbeinn veiðir af innlifun og klökknar þegar fallegur silungur bítur á agnið og beygir síðan af þegar litli silfraði anginn spriklar á bakkanum og fær faglega þurrkúkun og rúnk sem sína hinstu jarðnesku bón. Og Guð kinkar kolli, brosandi.

posted by Siggi on 1/15/2003 12:22:00 PM

Til hamingu Kolbeinn Aðalsteinn!

25. 11. 2002
Svartnætti grúfir yfir fiskilandinu eina. Fiskar gráta beitulausa hylina og aflaklær samhryggjast með litlu greyjunum. Sorgin er þó sárust hjá þeim sem húka í flötum og ljótum löndum yfir skræðum í hinu firrta stórborgarsamfélagi Kaupmannahafnar. Sú er raunin með Kolbein Aðalstein. Hann situr einn í Danmörku í dag á afmælisdeginum sínum við danskt gras (sem jafnast þó ekkert á við íslenska, safaríka og heiðgræna tugguna) og kalt og staðið kaffi í krús.
Hughreysting Veiðifélagsins Kolbeins til Kolbeins Aðalsteins er þó lítil afmæliskveðja. Kolbeinn vonar að 26. árið færi honum aukna fengsæld við vötnin.

Og

í lífinu.

Guð blessi þig Kolbeinn Aðalsteinn á þessum dýrðar drottins degi.

Guð.

posted by Siggi on 11/25/2002 04:23:00 PM

Ástin lætur ekki á sér standa. Guð vakir yfir okkur börnunum sínum. Nú eru komnar inn fleiri myndir úr síðustu veiðiferð. Dýrð sé Guði og Kolbeini.

posted by Spartakus on 10/17/2002 06:26:00 PM

Fátt er svo með öllu illt...

17. 10. 2002
Það á ekki af Kolbeini að ganga. Ofan á hryllilegar frostnætur og skelfilegt skammdegið leggst nú sú hryggð og hörmung að Kolbeinn hefur verið sviptur hinni litlu sumarhýru fagurra minninga í formi mynda af glæsilegum mönnum og fiskum. Myndirnar á Kolbeinssíðunni eru á bak og burt og eftir stendur myndatextinn einn og sér.
Kolbeinn lætur þó ekki bugast gagnvart þessu ameríska samsæri netjöfra einhverra og bætir inn nokkrum glænýjum (m)yndum sem sárabót. Þar eru hin þúsund andlit Kolbeins Hjartar í stóru hlutverki auk fleira góðs.
Fleiri myndir eru svo væntanlegar á næstunni svo og endursköpun þeirra mynda sem tímabundið hafa glatast í svarthol sífellt kaldari og dimmari tíma.

posted by Siggi on 10/17/2002 06:02:00 PM

Skammdegi, ó hve það skellur á með skelfilegum þunga sínum. Skemmtun, nei, heldur svívirða og skömm. Hvað varð um bogadregnar línur landslagsins og landslaxins. Er birtingur í sjónum, eða jafnvel bleikja? Hver dirfist að kveikja vonarglóð í hjarta okkar? Synir ógæfunnar kvænast dætrum óttans. Hvers vegna? Er starf okkar allt hin mesta tilgangsleysa? Er kannski ekki spurt um það á breiðum velli umfangsins? Kolbeinn býr í okkur öllum. Þessum veiðiköllum alsettum böllum niður að hnjám. Með stöngina að vopni, þó ólíkri Völu Flosa, berjast þeir við strauminn þunga, drengirnir mínir, börnin mín, kvikindin.

posted by Spartakus on 10/08/2002 04:47:00 PM

Slæmar fréttir af sjókvíalaxi

Kolbeinar eru flestir smáseyði í veiðimannaflaumnum og verða yfirleitt að láta sér nægja að fylgjast með stórkörlum úr fjarlægð sem moka löxum á land. Kolbeinn ætlar einn daginn að veiða stóra laxa til að strjúka og sleppa síðan, því að Kolbeinn ber virðingu fyrir sinni bráð. Eina tegund fisks vill þó Kolbeinn aldrei fá á sitt agn og þaðan af síður þurrkúka og rúnka. Þar er átt við hinn illséða sjókvíalax.
Þær slæmu fréttir eru nú teknar að berast að slík skoffín séu farin að slepjast upp eftir íslenskum ám. Staðfestist þar með ótti margs veiðimannsins að sjókvíaeldi sé langt í frá örugg leið og geti leitt til mikils skaða fyrir hið náttúrulega og dýrmæta vistkerfi sem Kolbeinar fá að njóta góðs af fyrir tilstilli Guðs almáttugs.
Kolbeinn hefur ekki ályktað opinberlega gegn sjókvíaeldi en Kolbeinn Sigurður er einarður í afstöðu sinni og býst við að aðrir Kolbeinar fylgi honum að máli:
Engar perverskar norskar laxaafskræmingar í vistkerfi íslensks lagar. Bönnum sjókvíaeldið!

Kolbeinn Sigurður

posted by Siggi on 10/08/2002 03:21:00 PM


Til hamingju, Kolbeinn Sölvi!

7. 10. 2002

Þessi mánudagur er langt í frá að vera óbreyttur þó að margt bendi til slíks enda táknar október ekkert í augum Kolbeins nema í mesta lagi sjóbirtingur og kaldir puttar sem standa framúr veiðigrifflunum við hemuð vötn nokkuð yfir sjávarmáli Íslandsstrandar. En dagurinn er stór því að Kolbeinn Sölvi er orðinn árinu eldri og nú aðeins ár í kvarthundraðið. Veiðiferill kappans er þvílíkur að lengd og þykkt að liggur við að jafnist á við æviárin öllsömul, þó ekki alveg.
Kolbeinn óskar syni Sigga Sveins, laxakóngs í Ölfusá, til hamingju með daginn.

Kolbeinn Sölvi veiði!
Húrra!
Húrra!
Húrra!
Húrra!

posted by Siggi on 10/07/2002 07:47:00 PM